news

Agalotan ❤️

24. 08. 2021

Framundan er spennandi skólaár á Sóla, ný börn hafa bæst í hópinn sem og fjórir nýir kennarar en um leið sjáum við á eftir elstu börnunum okkar og nokkrum kennurum. Haustið einkennist af aðlögun og því að koma skólanum í röð, reglu og rútínu, sem við elskum öll.

Í dag hefjum við kennslu eftir kynjanámskrá Hjallastefnunnar en fyrsta lotan heitir Agi og stendur hún frá 24.ágúst – 17.september. Lotulyklarnir eru virðing, hegðun, kurteisi og framkoma, hver lotulykill stendur yfir í eina viku. Agalotunni er ætlað að byggja upp sjálfstjórn, hún felur í sér jafnrétti og orðræðan er „við erum prúðust“, lotunni er einnig ætlað að vinna gegn yfirgangi og reglubrotum. Samkvæmt hugmyndafræði Hjallastefnunnar er hugtakið agi og ögun einfaldlega það að temja hið óendanlega sterka og máttuga frumafl sem öll börn koma með í farteskinu inn í heiminn, hinn guðdómlega vilja. Hegðunarkennsla felst fyrst og fremst í því að þjálfa barn að fara eftir reglum og slíkt gerist með endurtekningum og æfingum. Fylgja þarf málum fullkomlega eftir þannig að ekki sé annað í boði en að æfa fyrirfram ákveðna og jákvæða hegðun og barnið nær smátt og smátt valdi á að stjórna sér sjálft undir vökulum sjónum kennarans.

Allar æfingar og leikir sem þjálfa börnin í að hlusta og skilja fyrirmæli eru góðar svo og æfingar í grunnfærni í allri umgengni í leikskólastarfinu. Við förum t.d. í fyrirmælagöngur, æfum það að sitja á biðplássinu okkar, sitja á númerinu á samverumottu, skiptast á af jafnrétti, læra að ganga í röð og æfum jákvætt tungutak.

© 2016 - Karellen