news

Áræðnilota ❤️

28. 03. 2022

Áræðnilotan er síðasta kennslulotan í Kynjanámskránni, allt skólaárið höldum við þó þeirri námskrá á lofti og vinnum með einstaklings- og félagsþjálfun til skiptis. Markmið áræðnilotunnar er sköpun.

Lotulyklarnir eru kjarkur, kraftur, virkni og frumkvæði og hér reynir á áræðni, kjark og framkvæmdargleði. Kjarkæfingarnar geta verið af ýmsum toga eins og að dansa í stórum hópi, segja sögu í samveru eða líkamleg áreynsla eins og spila fótbolta eða hoppa niður af borði. Hér er fengist við leiðtogahæfni og að æfa sig að þora að standa fyrir máli sínu. Frumkvæði er styrkt og við fjöllum um vitsmunalegan og verklegan möguleika þeirra til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt, finna lausnir á vandamálum og vinna að nýjum hugmyndum.

Unnið er með að styrkja sjálfsmynd, æfa hreysti og styrk svo börnin okkar geti tekist á við hinar ýmsu áskoranir sem verða á vegi þeirra í lífinu. Við segjum stundum frá óvirkni í gerendahlutverk.

Í áræðnilotu er lögð áhersla á að minnka mistakaótta og þá sérstaklega hjá stúlkunum okkar. Það er allt í lagi að gera mistök, það gengur bara betur næst því okkur tekst ekkert nema reyna við það.

Þetta er skemmtileg lota þar sem það er aðeins hugmyndaflug kennarans sem stoppar okkur. Það er núna sem við brjótum upp hugmyndir af hefðbundinni hegðun, finnnum frumkraftinn okkar og notum hann. Hlaupum berfætt í grasinu og stökkvum ofan af matarborðinu. Á þessum árstíma þegar sól fer hækkandi er stórkostlegt að leggja upp í þesa lotu og auka fjölbreytileika hópatímanna.


© 2016 - Karellen