Innskráning í Karellen
news

Dagur leikskólans - orð leikskólakennarans Lóu Bald ❤️

08. 02. 2023

Dagur leikskólans❤️

Að fá að fara til vinnu hvern dag með þakklæti í hjarta, eftirvæntingu í hverri frumu og hamingju í sálinni eru forréttindi og þau forréttindi bý ég við❤️

Í fyrsta sinn á mínum rúmlega 22 ára ferli sem leikskólakennari er ég að vinna með yngstu börnunum. Þau voru rétt eins árs þegar ég fékk þau í fangið í ágúst síðastliðnum, sum ekki farin að labba, öll ótalandi og öll að koma beint úr foreldrafangi. Ég ætla að vera fullkomlega hreinskilin þegar ég segi að mér fannst þetta mikil áskorun og ég hreinlega vissi ekki hvort ég myndi höndla þetta. Fyrstu vikurnar voru hrikalega krefjandi en um leið svo einstaklega gefandi. Aðlögunarhæfni barna er á öðru stigi en okkar fullorðnu og áður en ég vissi af kjöguðu eða skriðu þessir litlu hjartaknúsarar í fangið á mér þegar þau mættu á morgnana og það er fátt sem stenst þá yndislegu tilfinningu. Þessar litlu mannverur sýndu mér afar fljótlega að hræðsla mín við þennan aldur var óþarfur, þau eru ekkert annað en endalaus uppspretta gleði, hamingju, verkefna og ævintýra því svo sannarlega er hver dagur með þeim ævintýri.

Að fá að sjá þau taka fyrstu skrefin, segja fyrsta orðið, nota skeið í fyrsta sinn í stað puttana, drekka í fyrsta sinn úr venjulegu glasi, upplifa snjó í fyrsta sinn, skila duddunni alveg sjálf í hólfið í fyrsta skiptið og allt hitt ,,í fyrsta sinn" er eitthvað sem ég get ekki lýst öðruvísi en sem töfrastundum❤️

Á föstudaginn var sat allur hópurinn okkar í fyrsta sinn söngfund með hinum kjörnunum, öll sátu þau, fylgdust með af áhuga og tóku þátt í þeim lögum sem þau þekkja-Þarna fylltist hjartað mitt af stolti yfir þessum litlu börnum sem allt í einu eru eitthvað svo stór, svo innilega hluti af hópnum, hluti af leikskólanum og já ég var alveg að fara að gráta❤️

Ég er auðmjúk að vera treyst fyrir því dýrmætasta sem foreldrar eiga og þakklát að hafa valið mér leikskólakennarastarfið❤️

Á þessum degi er ósk mín alltaf sú sama og það er að starfið sem unnið er á leikskólum alla daga verði einhverntímann metið að verðleikum❤️

Til hamingju öll með Dag leikskólans.

© 2016 - Karellen