Innskráning í Karellen

Kynjanámskrá

Kynjanámskráin er útfærsla á hugmyndafræði Hjallastefnunnar, þar sem markmiðið er að tryggja jafnrétti kynjanna, sem og annarra hópa, og veita börnum frelsi frá neikvæðum afleiðingum kynjakerfisins og staðalmyndum. Hjá Hjallastefnunni er gengið út frá þeirri kennisetningu að kynin öðlist takmarkaða færni og æfi of fáa eiginleika vegna heftandi hugmynda um kynhlutverk og vegna kynjamótunar sem samfélagið ákvarðar á grundvelli kyns. Kynjanámskráin tryggir að öll börn fái heildstæða þjálfun í mannlegum eiginleikum óháð kyni, en markmiðið er að veita börnum tækifæri til að leika og læra á eigin forsendum án takmarkanna sem kynjakerfið setur.

Með kynjanámskránni er skólaárinu skipt í sex lotur og er hver lota í fjórar vikur. Loturnar byggjast á því að þjálfa og bæta bæði einstaklings- og félagsfærni hvers barns. Þrjár þeirra einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við karlmennsku á meðan hinar þrjár einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við kvenleika. Með því að fylgja eftir öllum sex lotum fær hvert barn því heildstæða þjálfun í einstaklings- og félagsfærni, þar sem jafnvægi ríkir á milli eiginleika sem eru oft tengdir við kyn. Allir þættir kynjanámskrárinnar eru þó ávallt í forgrunni í öllu skólastarfinu.

Kynjanámskrá Hjallastefnunnar

© 2016 - Karellen