Innskráning í Karellen
news

Áræðnilota ❤️

08. 04. 2024

Þessari síðustu lotu kynjanámskrárinnar er ætlað að reka smiðshöggið á heildarstarf vetrarins hvað varðar persónuþroska, bæði í einstaklings- og félagslegu tilliti og skilning barnanna á fjölþættum eiginleikum og mannlegri hæfni. Hér reynir á áræðni, kjark og framkvæmdagleði. Kjarkæfingar geta verið af ýmsum toga og þar þarf kennarinn að nýta hugmyndaflug sitt vel.

• Markmið sem byggist upp er sköpun.

• Lotulyklar eru kjarkur, kraftur, virkni, frumkvæði.

Orðræða lotunnar: Hreysti, kjarkur og kraftur eru lykilorð í þessari lotu og gott er fyrir kennarann að nýta þessi lykilorð í óvenjulegu samhengi. Til dæmis er þarft að víkka út kynjaímynd stúlknanna með því að tengja hefðbundna stúlknahluti við þessi hugtök, s.s. „þetta er hraustlegt hlaupapils” og „þú ert með svo kraftmiklar og sterkar hendur, þess vegna er myndin þín frábær“. Og drengjunum þarf að kenna að nýta styrk sinn til hjálpar öðrum svo þeir byggi upp þá sjálfsmynd að þeir séu hraustir og hugrakkir verndarar. En umfram allt þarf að láta hinar gullvægu setningar „gengur betur næst!” og „æfingin skapar meistarann!““hljóma við öll tækifæri þar sem börnin takast á við erfið verkefni og mistekst, því áræðni byggir ekki síst á því að reyna aftur og aftur að sigrast á hindrunum sínum.

Mistakaviðhorf þarf að takast á við í þessari lotu en ótti stúlkna er oft meiri en drengja hvað það varðar. Æfing felur í sér mistök og kennarinn verður að sýna gott fordæmi og kenna hvernig er best að bregðast við þeim. T.d. er tvíbolt með ósoðin egg leikur sem brýtur tabúin og sýnir mistök sem kennarinn gerir án þess að vera hið minnsta dapur yfir.

© 2016 - Karellen